Contents: Ljóð án lags. Ljóð eftir Reinhardt Reinhardtsson.
Ævar R. Kvaran ritar inngang: Nokkur orð um höfundinn.
Reinhardt Reinhardtsson er fæddur Mjófirðingur og lifði þar bernskuárin sín. Síðan dvaldist hann í Norðfjarðarþorpi um árabil. Hann var sagður norskur að föðurkyni.
Fjörutíu vikna gamlan tók Steinn Jónsson, þá kunnur barnakennari í Mjóafirði, þennan litla og munaðarlausa dreng í fóstur. Síðan deildu þeir saman gæðum lífsins og gjöfum þess í 43 ár.
Kona Reinhardts var Ólöf Ögmundsdóttir frá Þistilfirði. Þau hjón áttu lengst af heima í Reykjavík og ráku þar Efnalaug Austurbœjar með útibúum.
Norðfjörður
Aftur lít ég fjörðinn fríða,
fagurbláa, djúpa, víða
blunda fast í faðmi hlíða;
vökul standa verði á
sveipuð glæstum árdagseldi
og aftanskinsins rauða feldi
fjöllin brött og himinhá.
Egils rauða byggðin breiða
blasir við frá strönd til heiða,
lækir glitra, fossar freyða;
fjalls um vanga strýkur blær.
Sér við atlot sumartíðar
svartar brúnir Skuggahlíðar
lyfta himinljósi nær.
Syngur blítt á silfurstrengi
sumarljóð við tún og engi
áin tæra. Ljúft og lengi
hólmar grænir hlýða á.
Upp við sævarsandinn kalda
sína hörpu stillir alda;
hvítt er skaut og skikkjan blá.
Yfir sveit ég augum renni;
örnefni þar flest ég kenni;
björtu jökuls undir enni
fagran lít ég Fannadal.
Droplaugar við djörfum sonum
dvelur hugur minn að vonum,
er um fjalla ég svipast sal.
Hof, þér lutu heiðnar tíðir,
hvassa branda er skóku lýðir,
blóðs svo runnu straumar stríðir
og styrjargnýr um loftið smaug.
Hér á vöggu sína saga,
sem allt fram á vora daga
krýnir ljóma kappans haug.
Heyri ég kirkjuklukkur hringja,
klerka prúða messur syngja;
minningarnar aftur yngja
upp hinn fagra Skorrastað.
Hér var rausn og höfðingsbragur,
héðan lýsti eins og dagur
trúarsól, er syrti að.
Býlin dreifð um blómagrundir
bröttum fjallahlíðum undir
minna á æsku-unaðsstundir,
allt of fljótt, sem liðu hjá.
Tímar breytast; húsin hækka;
herfi og plógur túnin stækka.
Þó má gamla svipinn sjá.
Berum undir bjargsins fótum
bærinn vex af fornum rótum.
Áfram, nýjar brautir brjótum,
boðorð vorra tíma er.
Létta byrði af lúnum bökum,
lyfta þyngstu Grettistökum
elfarfoss og heiðahver.
Fjöllin upp í heiðið háa
huga lyfta, og djúpið bláa
sjónhring víkki, samt því smáa
sé ei gleymt; það virða skal.
Væna sveit, þig vor hvert yngi;
vögguljóð þér aldan syngi;
Blessun streymi um strönd og dal.
|